Vísindamenn

Ismail Al-Jazari

Einn af þekktustu uppfinningamönnum gullaldar íslams, fæddist árið 1136 og lést árið 1206, sama ár og hann lauk við frægasta rit sitt. Lengst af starfaði hann sem yfirverkfræðingur í Artaklu-höllinni í Tyrklandi. Hann var fjölfræðingur, það er að segja hann var í senn fræðimaður, uppfinningamaður, verkfræðingur og vélvirki, handverksmaður, listamaður og stærðfræðingur. Hann er þekktastur fyrir vélarnar sem hann hannaði og smíðaði, en margar þeirra voru sjálfvirkar, í raun frumstæð vélmenni. Vélarhlutar sem hann hannaði höfðu mikil áhrif á verkfræði. Frægustu uppfinningarnar eru fílaklukkan og kastalaklukkan. Við smíð þeirra sótti Al-Jazari innblástur meðal annars til rannsókna og tilrauna Forn-Grikkja og Kínverja.

Al-Jazari er oft nefndur faðir nútímaverkfræði og faðir vélmennafræði.

Þekkingarrit um hugvitsamlega vélknúin tæki er helsta rit Al-Jazaris sem kom út árið 1206. Í ritinu, sem kom út árið 1206, lýsir hann hundrað vélknúnum tækjum og lætur leiðbeiningar fylgja um hvernig hægt sé að smíða þau. Á ensku útleggst titill bókarinnar á þennan hátt: The Book of Knowledge of Ingenious Mechanical Devices.

Abu Musa Jabir ibn Hayyan

Abu Musa Jabir ibn Hayyan var efnafræðingur, alkemisti, stjörnufræðingur, verkfræðingur, landafræðingur, heimspekingur, lyfjafræðingur, apótekari og lífræðingur.

Jabir hefur stundum verið kallaður faðir forn-efnafræðinnar en hann lagði grunn að hugmyndum um hvernig gera á efnafræðitilraunir.

Nærri 3000 ritverk eru eignuð honum. Þau fjalla um fjölbreytta hluti svo sem tónlist, læknisfræði, galdra, efnafræði, líffræði og táknfræði.

Jabir er sagður hafa uppgötvað 19 mismunandi efni sem í dag eru kölluð frumefni. Hann var fyrstur til að kynna tilraunir í efnafræði. Hann fullkomnaði notkun á mörgum efnafræðiferlum sem enn í dag eru notaðir á efnafræðitilraunastofum. Þar á meðal eimingu, kristöllun og þurrgufun. Hann uppgötvaði ofursýru sem kallast Kóngavatn. Kóngavatn getur leyst í sundur gull, en það var mjög gagnlegt og notað í þúsund ár til að losa og hreinsa gull og aðra málma. Mörg efnafræðileg hugtök koma frá honum til dæmis alkalí og hann notaði fjölda efnafræðitækja og efna sem enn eru grunnur að efnafræðitilraunum, svo sem sýrur, eimingartæki o.fl.

Jabir skipti efnum í þrjá flokka, vökva sem gufa upp við hitun, málma og ósveigjanleg efni eins og steina. Þessi flokkun varð grunnur að nútíma flokkun efna.

Al-Khwarizmi

Al-Khwarizmi var persneskur stærðfræðingur, stjörnufræðingur og landafræðingur sem starfaði í Húsi viskunnar í Bagdad. Hann er þekktastur fyrir verk sín um stærðfræði og stjörnufræði og hefur verið nefndur faðir algebrunnar. Þekktasta bókin hans er Bók samantektar varðandi útreikning með hjálp tilfærslu og einföldunar, þar sem orðið algebra kemur fyrst fyrir. Algebra kemur frá arabíska orðinu al-jabr sem þýðir einföldun. Hann er einnig þekktur fyrir framlag sitt til hornafræði. Hann vann mikið út frá verkum forn-grískra og indverskra stærðfræðinga.

Meðal annarra verka hans er Bók um lýsingar á Jörðinni, þar sem er að finna lista með 2402 hnitum  borga og annarra landafræðilegra atriða. Einnig vann hann við skrásetningu á hreyfingum sólar, tungls og þeirra fimm pláneta sem þá voru þekktar. Þessi verk mörkuðu tímamót í íslamskri stjörnufræði.

Á 12. öld voru verk hans þýdd yfir á latínu og þekking hans barst til Evrópu.

Orðið algóritmi er dregið af nafni Al- Khwarizmis en hann þróaði hugmyndina um algóritma í stærðfræði og því hafa sumir tekið upp á því að kalla hann afa tölvunarfræðinnar.

 Mariam al-ijliya

Einnig þekkt sem Mariam al-Astrolabiya vegna þess hversu mikilvirk hún var í hönnun og smíði stjörnuskífa (e. astrolabe). Lítið er vitað um Mariam fyrir utan að hún vann fyrir emírinn í Aleppo sem virtur stjörnufræðingur og uppfinningakona. Aleppo er nú stórborg í Sýrlandi. Mariam var uppi á 10. öld en ekki er vitað um nákvæmt fæðingarár eða hvenær hún dó. (Fáar heimildir hafa varðveist um vísindakonur frá gullöld íslams. Þó er talið að þær hafi haft jafn mikinn aðgang að vísindastofnunum og karlmenn.)

Fatima al-Majriti

Afar lítið er vitað um Fatimu, annað en að hún var mikilsmetinn stjörnufræðingur í Al-Andalús, einkum í borgunum Kordóba og Madríd. Hún var dóttir stjörnufræðingsins Maslama al-Majriti og voru þau feðgin uppi á 10. öld. Fatima skrifaði bækur sem voru leiðréttingar á aðferðum og niðurstöðum annarra fræðimanna. Meðal annars leiðrétti hún, í samstarfi við föður sinn, stjörnufræðilega útreikninga Al-Khwarizmis. Einnig unnu þau saman að dagatölum og útreikningi raunverulegrar staðsetningar sólar, tungls og pláneta.

Sökum þess hversu fáar heimildir eru til um Fatimu hefur í raun aldrei verið fullkomlega sannað að hún hafi verið til, en það er þó líklegt, því til er rit sem kallast Leiðréttingar Fatimu.

Abbas ibn Firnas

Stórmerkilegur uppfinningamaður, fjölfræðingur, skáld og stórhugi. Hann fæddist árið 810, lést árið 887, bjó og starfaði í furstaríkinu í Kordóba og er frægastur fyrir að hafa fyrstur manna gert raunverulega tilraun til flugs. Hann hannaði einnig klukkur, fann leið til að lita gler, orti ljóð og margt fleira.

 

Muhammad al-Idrisi

Abu Abdullah Muhammad al-Idrisi al-Qurtubi al-Hasani as-Sabti (f. 1100, d. 1166) var merkur landkönnuður (mugharrarin á arabísku) og kortagerðamaður sem fæddist í Norður-Afríku. Hann ferðaðist vítt og breitt, lærði í Kordóba en bjó svo og starfaði lengst af í Palermó á Sikiley við hirð kristna konungsins Rogers II. Þekktastur er Al-Idrisi fyrir að hafa gert umfangsmikinn heimsatlas (Tabula Rogeriana) fyrir konunginn. Aldrei áður hafði verið gert viðlíka kort af hinum þekkta heimi og kortagerð Al-Idrisis var upphafið að nýju tímabili í landkönnun.

Ibn Al-Haytham

Einnig þekktur sem Alhazen (f. 965, d. 1040). Hann var þekktur fjölfræðingur sem bjó og starfaði lengst af í borginni Kaíró í Norður-Afríku, en borgin var þá höfuðborg kalífaríkis sem kallaðist Fatimid. Al-Haytham var einn af merkustu eðlisfræðingum sögunnar. Hann er þekktastur fyrir framlag sitt til ljósfræði þar sem hann eykur skilning okkar á ljósi og sjón, og hefur verið kallaður faðir nútíma ljósfræði. Hann gaf út Bókina um ljósfræði sem samanstóð af tilraunum og stærðfræðilegum sönnunum. Bókin átti eftir að hafa mikil áhrif í sögu eðlisfræðinnar og á sinn þátt í framförum í augnlækningum og augnskurðaðgerðum.

Banū Mūsā-bræðurnir

Banu Musa-bræðurnir þrír voru fræði- og vísindamenn hjá Húsi viskunnar í Bagdad á 9. öld. Þeir fundu upp margskonar tæki og skrifuðu bækur sem höfðu áhrif á eftirmenn þeirra, til dæmis Al-Jazari. Bræðurnir þrír hétu Muhammad, Ahmad og Hasan. Þeir voru allir fjölfræðingar en sérhæfðu sig þó. Sá elsti, Muhammad, lagði einna mest stund á rúmfræði og stjörnufræði. Ahmad lagði áherslu á aflfræði og vélvirkjun. Hasan var framúrskarandi rúmfræðingur.

Margt liggur eftir þá bræður og fátt var þeim óviðkomandi. Til dæmis bjuggu þeir til gasgrímu, fundu út lengd ársins, smíðuðu frumgerð að sveifarás (sem er einn af meginhlutum aflvéla í dag) og margt fleira. Þekktasta og vinsælasta verk þeirra er bókin Kitab al-Hiyal, á ensku The Book of Ingenious Devices, sem útleggst hér á íslensku sem Brellutækjabókin.

Bræðurnir störfuðu í Húsi viskunnar á fyrri hluta 9. aldar og voru því upp á sitt besta heilum þremur öldum á undan Al-Jazari, sem sýnir hversu langt á undan samtíð sinni þeir voru.