10 – Tabula Rogeriana

10. kafli – Tabula Rogeriana

Ár: 1154
Vísindamaður: Muhammad al-Idrisi (1100-1166)
Vísindagrein: Landafræði
Staður: Sikiley
Uppfinning: Heimskortið Tabula Rogeriana

Kaflinn gerist á Sikiley sem á þessum tíma var sjálfstætt konungsríki. Unglingarnir hitta þar landafræðinginn al-Idrisi sem er þekktastur fyrir að hafa búið til mjög nákvæmt heimskort, Tabula Rogerina fyrir Roger II konung Sikileyjar.

Kveikja

Tabula Rogeriana-kortið
Skoða kortið með skjávarpa. Smelltu á myndina af kortinu til að nálgast hærri upplausnir af því.


Upplagt er að gefa ekki upp strax hvaða lönd eru á kortinu eða að kortið sé á hvolfi, heldur reyna að fá nemendur til að átta sig á því sjálfa. Ef það gengur illa má gefa vísbendingar, byrja á því að segja að það sé á hvolfi eða benda á ákveðin lönd.

Muhammad al-Idrisi

Muhammad Al-Idrisi fæddist í borginni Ceuta í Norður-Afríku. Hann var merkur landkönnuður (mugharrarin á arabísku) landafræðingur og kortagerðamaður. Hann lærði í Kordóba og ferðaðist vítt og breitt, um Norður-Afríku, Al-Andalús (hinn múslimska Spán) og fleiri staði og öðlaðist við það góða þekkingu á löndunum. Síðar starfaði hann við hirð kristna konungsins Rogers II í Palermó á Sikiley. Þekktastur er Al-Idrisi fyrir að hafa gert umfangsmikinn heimsatlas fyrir konunginn. Aldrei áður hafði verið gert viðlíka kort af hinum þekkta heimi og kortagerð Al-Idrisis var upphafið að nýju tímabili í landkönnun. Hann vann út frá eldri grískum og arabískum kortum en bætti við eigin þekkingu, yfirheyrði ferðlanga sem hann hitti og sendi menn í ferðalög til að safna frekari upplýsingum. Kortin hans komu út í bók sem oftast er kölluð Tabula Rogeriana, eða Bók Rogers. Al-Idrisi uppgötvaði að jörðin væri hnöttótt, að vatn væri fast á yfirborði hennar og loft væri í kringum hana. Hann reiknaði meira að segja út að ummál jarðar væri tæplega 37 þúsund kílómetrar sem skeikar aðeins 8% frá því sem reiknað hefur verið í dag.

Al-Idrisi kortlagði ekki aðeins löndin heldur safnaði hann gríðarmiklum upplýsingum um þau, til að mynda um landslag og veðurfar, hvar vegir lágu, hvers konar landbúnaður var á svæðunum o.s.frv. Einnig safnaði hann gróðri hvert sem hann fór og skráði niður og skrifaði upplýsingar um plöntur og dýr í öðrum löndum.

Roger II konungur Sikileyjar

Konungur Sikileyjar (f. 1095, d. 1154) sem tókst að sameina landsvæði Normanna á Ítalíu í eitt konungsríki. Konungsríkið Sikiley var við lýði allt til ársins 1816 þegar það sameinaðist konungsríkinu Napólí sem svo sameinaðist nokkrum öðrum borgríkjum sem urðu að konungsríkinu Ítalíu árið 1861.

Roger II er þekktastur fyrir að hafa kortlagt hinn þekkta heim í samstarfi við Al-Idrisi. Saman sönkuðu þeir að sér þekkingu um umheiminn meðal annars með því að safna ferðabókum kaupmanna og pílagríma og taka viðtal við alla þá sem áttu leið um konungsríkið og lumuðu á nýrri þekkingu (eins og í tilviki Gunnars og Leylu í Stjörnuskífunni).

Roger II var fróðleiksþyrstur og umburðarlyndur konungur sem safnaði í kringum sig fræðimönnum og ráðgjöfum frá mismunandi þjóðum og menningu. Allar konunglegar tilskipanir voru gefnar út á latínu, grísku, arabísku og hebresku. Hann var kristinn en talaði arabísku og var heillaður af arabískri menningu. Arabísk áhrif mátti sjá meðal annars í byggingarlist, landbúnaðartækni og hernaðartækjum.

Konungsríkið Sikiley í hans tíð var því miðstöð fjölmenningar og fræðimennsku.

Tabula Rogeriana

Bók Rogers, Tabula Rogeriana á latínu (eða Bók ánægjulegra ferða til fjarlægra landa sem er lausleg þýðing á upprunalega arabíska titlinum), var mesta verk Al-Idrisis. Verkið kom út árið 1154 og var tileinkað Roger II konungi Sikileyjar sem hafði fyrirskipað að það yrði gert, en hann tók virkan þátt í verkefninu. Roger virðist hafa verið vel upplýstur og umburðarlyndur konungur sem var forvitinn um heiminn.

Bókin samanstóð af 71 kortahlut og 70 nákvæmum ferðalýsingum af svæðunum. Þetta var nákvæmasta heimskort miðalda og nákvæmara kort var ekki gert næstu þrjár aldirnar eftir að hún kom út. Þegar kortahlutunum er raðað saman sýnir heildin Evrópu og Asíu-svæðið en aðeins nyrsta hluta Afríku. Í bókinni er fjallað um menningu, efnahag og pólítískt ástand á hverju svæði. Þar er meira að segja minnst á Ísland og hversu langa leið tekur að sigla þangað frá Írlandi.

Þegar upprunalega kortið er skoðað er mikilvægt að hafa í huga að með okkar augum er það á hvolfi: norður er suður. Þannig skilgreindi fólk áttirnar á þessum tíma.

Það tók fimmtán ár að vinna Tabula Rogeriana en Roger II lést fáeinum vikum eftir að verkefninu var lokið. Árið 1160 risu sikileyskir barónar upp gegn Vilhjálmi,syni Rogers, , og út braust borgarastyrjöld. Eintökin af bókinni voru brennd en Al-Idrisi tókst að flýja með arabísku gerðina og varðveita hana.

Kort bókarinnar veitti frægum landkönnuðum eins og Vasco da Gama og Kristófer Kólumbus innblástur.

Umræðupunktar

  • Hvernig áttuðu fræðimenn sig á því á þessum tíma að jörðin væri hnöttótt? Svör við því eru d. mislangir dagar, að ef horft er á skip langt út á hafi sést ekki neðri hlutinn, mismunandi staða stjarnanna eftir landsvæðum og skugginn á tunglinu í tunglmyrkva er kringlóttur.
  • Hvað vitið þið um Sikiley?
  • Tabula Rogeriana-kortið snýr öfugt við kort nútímans. Hvernig skyldi standa á því? Er það endilega rétt að hugsa um norður og suður eins og við gerum í dag?
  • Tala um hvernig flöt kort gefa ranga mynd af stærð landa þar sem pólarnir eru flattir út. Skoða síðan síðuna The true size of þar sem hægt er að bera saman raunverulega stærð landa.
  • Horfa á eftirfarandi brot úr West Wing-sjónvarpsþáttunum um skekkju í kortum sem við þekkjum.

Verkefni

  • Nemendur útbúa kort af jörðinni eftir minni. Bannað að kíkja í kortabækur. Hversu nákvæm verða kortin?
  • Nemendur útbúa kort af sinni heimabyggð eftir minni. Bannað að kíkja í kortabækur. Hversu nákvæm verða kortin?
  • Nemendur útbúa kort af stað sem þeir hafa heimsótt eftir minni. Bannað að kíkja í kortabækur. Hversu nákvæm verða kortin?
  • Nemendur skoða Tabula Rogeriana-kortið, reyna að finna út hvaða lönd eru hvar og merkja inn borgir og lönd nútímans. Smelltu á myndina til að fá stærri upplausn af kortinu.