Almennt um námsefnið

Almennt um námsefnið

Í Stjörnuskífunni er fjallað um efni sem hefur lengi verið utangáttar í sögubókum víða um heim: uppgang vísinda og tækni í Mið-Austurlöndum á miðöldum, en það tímabil er oft kallað gullöld íslams. Þá sameinuðust mörg lönd undir eitt kalífaríki (trúarríki) þar sem vísindi og fróðleikur voru í hávegum höfð og mikil áhersla var lögð á lærdóm og þekkingu. Þegar eitthvað sem tengist trúarbrögðum kemur fyrir í sögunni er sagt frá því á hlutlausan hátt. Megináherslan er á vísindi og tækni.

Á miðöldum varðveittu múslimskir vísindamenn skrif Forn-Grikkja, Indverja og annarra fornra menningarþjóða og þróuðu hugmyndirnar og kenningarnar. Margar nytsamar uppfinningar urðu til hjá múslimum sem sumar hverjar bárust ekki til Evrópu fyrr en löngu síðar.

Stjörnuskífan er leikjabók sem segir frá tveimur unglingum, Gunnari og Leylu, sem lenda í tímaflakki þar sem þau hitta fyrir nokkra af merkustu vísindamönnum miðalda og kynnast uppfinningum þeirra og fræðum.

Í hverjum kafla hitta þau einn vísindamann og kynnast uppfinningum hans eða hennar, með fáeinum undantekningum (t.d. þegar þau festast í heimi djinnanna). Undir lok hvers kafla opnast  þraut eða leikur sem tengist efninu, ýmist lauslega eða beint. Í sögunni koma fyrir margskonar nöfn og hugtök sem hægt er að smella á og birtast þá fróðleiksmolar með nánari skýringu. Fróðleikurinn, sem safnað hefur verið, er síðan ávallt aðgengilegur frá aðalvalmynd.

Hér fyrir neðan markmiðslýsinguna eru tvær tillögur um hvernig vinna mætti með Stjörnuskífuna í skólastarfi, annars vegar með hraðri yfirferð og hins vegar hægri yfirferð.

Markmið

Að nemendur:

  • Lesi um vísindamenn og uppfinningar frá miðöldum í Mið-Austurlöndum.
  • Kynnist miðaldasögu þessa heimshluta og þeim áhrifum sem hún hafði á Evrópu.
  • Kynnist betur landafræði Mið-Austurlanda.
  • Þekki uppruna nokkurra mikilvægra atriða í vísindasögunni.
  • Rannsaki einhverjar af þessum uppfinningum með því að vinna verkleg verkefni.
  • Veiti vísindum og sögu meiri áhuga.
  • Geti útskýrt áhrif tækni og vísinda á líf fólks.

Hröð yfirferð

Nemendur lesa alla leikjabókina og leysa þrautirnar í samfelldri atrennu, heima eða í kennslustund. Eftir að lestri lýkur vinna nemendur verkefni upp úr efninu. Verkefni gætu verið:

  • Tímaritun. Nemendur skrifa útdrátt úr sögunni og telja upp það helsta sem þeir lærðu.
  • Hver nemandi velur sér einn af vísindamönnunum og býr til kynningu um hann/hana og uppgötvanirnar.
  • Nemendur fá vinnublöð og svara nokkrum spurningum um efnið.
  • Umræður. Kennari velur nokkra af umræðupunktunum sem má finna í hægu yfirferðinni og stjórnar umræðum um efnið í tíma.

Hæg yfirferð

Nemendur lesa einn kafla í einu, annað hvort heima eða í tímum. Eftir hvern kafla er farið nánar í efnið í tíma. Hægt er að vinna verkefni á svipaðan hátt og í hröðu yfirferðinni en kafa dýpra í  hvern kafla. Til dæmis með því að horfa á myndskeið af netinu og gera verkleg verkefni sem tengjast efninu. Tillögur um slík verkefni er að finna hér í kennsluleiðbeiningunum.

Hér er yfirlit yfir efni hvers kafla og tillaga um skiptingu kennslustunda:

Kennslustundir Kaflar Efni
1 Flutningar Mið-Austurlönd, landafræði, saga, menning
2-3 Fílaklukkan,

Stjörnuskífan

Al-Jazari, sjálfvirknivélar, áveitur, tímaflakk
4 Alkemistinn raunamæddi Jabir, alkemía, efnafræði
5 Kynstur af mynstrum Mynstur í íslamskri menningu, djinnar í íslam
6 Alger algebra Al-Khwarizmi, algebra
7 Undir stjörnuhimni Mariam al-Ijliya, stjörnufræði
8 Leiðréttingar Fatimu Fatima al-Majriti, Al-Andalús, múslimar í Evrópu
9 Ekkert stél Abbas ibn Firnas, flug
10 Tabula Rogeriana Al-Idrisi, landafræði (gömul og ný)
11 Myrkraherbergið Al-Haytham, ljósfræði, ljósmyndun, skjávarpar
12 Flautuleikarinn Banu Musa, sjálfvirknivélar, tónlist
13 Aftur til nútíðar Gamlir og nýir tímar, samantekt