8 – Leiðréttingar Fatimu

Kafli 8 – Leiðréttingar Fatimu

Ár: 990
Vísindamaður: Fatima al-Majriti (ca. 950-1007)
Vísindagrein: Stjörnufræði og stærðfræði
Staður: Madríd, Spáni
Uppfinning: Leiðréttingar á fræðiritum

Gunnar og Leyla ferðast með stjörnuskífunni til Madrídar á Spáni og finna þar vísindakonuna Fatimu al-Majriti. Fatima á að hafa gefið út ítarlega bók, Leiðréttingar Fatimu, sem innihélt fjölmargar leiðréttingar á verkum annarra vísindamanna. Heimildir um hana eru afar fáar og ekki hefur verið fullkomlega sannað að hún hafi verið til, þótt það sé líklegt. Þar sem hún var kona gæti ástæðan fyrir því verið sú að eftir gullöld íslams hafi vinna hennar verið þögguð niður eða lítið gert úr henni, en talið er að konur hafi haft greiðan aðgang að vísindasamfélaginu á gullöldinni. Hér gefst því tækifæri til að velta fyrir sér stöðu kvenna í vísindaheiminum, bæði áður fyrr og í samtímanum. Einnig er tilvalið að skoða betur Spán undir yfirráðum múslima, þ.e. Al-Andalús, og þau áhrif sem það hafði á menningu Spánar.

Al-Andalús

Al-Andalús í kringum árið 1000.


Árið 711, eða á tímum Umayyad-kalífaríkisins í Mið-Austurlöndum, réðust múslimar á Íberíuskagann og hertóku hann allan á fjórum árum  þannig að svæðið varð hluti af kalífaríkinu. Sumir fræðingar segja að ekki hafi verið um allsherjar stríð á hendur öllum þjóðarbrotunum þar að ræða, heldur hafi múslimar öðlast völd smám saman vegna þess óreiðukennda ástands sem ríkti   frá því að Vestrómverska ríkið féll árið 496.  Tími Rómaveldis var liðinn undir lok og Vestur-Evrópa skiptist upp í fjölda konungsríkja sem mörg hver voru kristin. Al-Andalús dregur nafn sitt af Vandölum, þjóðflokki sem bjó á Íberíuskaganum og Norður-Afríku.
Á tímum gullaldar íslams var Íberíuskaginn, það er svæðið í Evrópu sem nú er Spánn og Portúgal, kallaður Al-Andalús. Saga svæðisins er mikilvæg í tengslum við samskipti múslima og kristinna á miðöldum og því er eftirfarandi umfjöllun fremur ítarleg.

Líkt og í Mið-Austurlöndum var mikil gróska í vísindum og menningu í Al-Andalús og sumir þekktustu vísindamanna gullaldarinnar komu þaðan, eins og Abbas ibn Firnas, en hann bjó í furstaríkinu Kordóba sem síðar varð höfuðborg nýs sjálfstæðs kalífaríkis í Al-Andalús.

Eftir að Abbasídar steyptu Umayaad-veldinu af stóli í Mið-Austurlöndum leystist kalífaríkið í Al-Andalús upp og varð að mörgum minni múslímskum ríkjum. Í þessum ríkjum bjuggu múslimar og kristnir tiltölulega í sátt og samlyndi. Aftur á móti herjuðu kristnu konungsríkin í norðri látlaust á múslimana, og öfugt. Smátt og smátt efldust kristnu ríkin og tóku yfir sum af múslímsku ríkjunum. Múslímskur þjóðflokkur í Norður-Afríku sem kallaðist Almoravídar ruddist þá inn á Íberíuskagann og bjargaði Al-Andalús frá falli. Þessi þjóðflokkur var herskár og bókstafstrúar og því beið hámenning múslimanna sem fyrir voru á skaganum hnekki. Eftir að kristnir tóku yfir borgina Toledo árið 1085 fór veldi múslimanna á skaganum að hnigna verulega, en það gerðist ekki á einni nóttu. Næstu aldir einkenndust af valdatafli milli smáríkjanna — stundum með átökum, stundum með pólitískum leikjum — sem leiddi stig af stigi til endaloka veldis múslima í Evrópu.

Þegar krossferðirnar hófust árið 1095, eftir að Úrban páfi II fyrirskipaði að íslam skyldi fjarlægt úr heilögu löndunum í austri, urðu ríki múslima í Al-Andalús að einangruðum borgríkjum, sem kristnir konungar tóku að lokum yfir.

Þekkt er að síðasta vígi múslima á Spáni var í borginni Granada, sem féll árið 1492 í hendur spænsku konungshjónanna Ísabellu og Ferdinands, og stundum er talað um að það hafi verið mikil orrusta sem gerði út af við múslima í Evrópu, en raunin er sú að múslimar og kristnir lifðu saman í margar aldir þar á undan og áhrif beggja hvor á aðra voru gríðarmikil.

Samkvæmt seinni tíma sagnfræði voru átökin milli kristinna og múslima á Spáni ekki trúarstríð, heldur langvarandi barátta um auð, völd og lönd.

Konungsveldið Spánn tók að rísa, meðal annars með landvinningum í Suður-Ameríku þar sem gull innfæddra var fært austur; gullöld Spánar var í uppsiglingu. Í austri tók veldi Tyrkja hinsvegar einnig að rísa og Spánn og önnur Evrópulönd urðu fyrir miklum þrýstingi frá þeim. Múslimar á Spáni urðu að blórabögglum fyrir öll átökin, því ekki máttu múslimar komast aftur til valda með hjálp Tyrkja. Árið 1492 jók konungsvaldið vald Spænska rannsóknarréttarins, sem áður hafði það hlutverk að framfylgja kaþólskum rétttrúnaði, og árið 1502 kom sú skipun frá Rannsóknarréttinum að allir gyðingar og múslimar á Spáni skyldu taka upp kristna trú ellegar yfirgefa landið.

Brátt byrjaði kaþólska kirkjan á Spáni að afmá ummerki um veldi múslima, til dæmis voru milljón bækur á arabísku brenndar og glataðist þar firnamikil saga og þekking. Engu að síður varðveittist mikið af þekkingu, þökk sé samvinnu venjulegra múslima og kristinna. Gott dæmi um það var í borginni Toledo á Spáni. Þar ríkti fróðleiksþorsti, múslimar og kristnir lærðu tungumál hvors annars, bækur múslima voru þýddar á evrópsk tungumál og þannig varðveittist þekkingin og breiddist út. Til að mynda var háskólinn í Oxford á Englandi stofnaður eftir að fræðimenn ferðuðust til Toledo til að viða að sér kunnáttu. Stundum er talað um að endurreisnin, tími vísinda og menningar eftir miðaldir, hafi hafist á Ítalíu. En í seinni tíð hefur verið bent á að þekkingin hafi borist til Ítalíu frá Toledo; að endurreisnin hafi í raun hafist þar í borg.

Hnignun múslima í Evrópu linnti ekki. Árið 1526 fór Spænski rannsóknarrétturinn til Granada og múslimarnir sem iðkuðu íslam ólöglega þar, voru hraktir burt eða látnir skipta um trú með valdi. Árið 1609 kom svo skipun frá Spænska konungsvaldinu um að allir múslimar skyldu færðir úr landi. Múslimar höfðu verið í Evrópu í sjö aldir, en tími þeirra þar var liðinn.

Saga Al-Andalús og múslima á Spáni er ekki saga góðs og ills, heldur flókin saga þar sem vitsmunir og þekking venjulegs fólks laut í lægra haldi fyrir trúarvaldi og pólitík.

Umræðupunktar

  • Ræða fræðasetur og hlutverk þeirra í íslömsku samfélagi. Ef ekki var þegar búið að því má bera þau saman við nútíma háskóla og benda á að þeir eru ekki eingöngu skólar heldur fara þar fram rannsóknir.
  • Biðja nemendur um að nefna frægt vísindafólk og uppfinningafólk. Búast má við því að heyra nöfn eins og Einstein, Edison og Bill Gates og líkur verða eflaust á því að fá kvennmannsnöfn komi fram. Ræða hvers vegna það geti verið. Nú virðist t.d. sem konur hafi mátt sinna vísindum á tímum gullaldar íslams en samt eru ekki miklar heimildir til um þær. Benda má á að konur hafa alltaf haft sinn sess í vísindum en hafa í gegnum söguna þurft að mæta mikilli mótstöðu og stundum útilokun. Á vissum tímum máttu þær ekki stunda háskólanám eða fengu ekki að starfa við hvað sem var.
  • Sýna myndband um mikilvægar vísindakonur í sögunni, t.d. þetta:

Verkefnahugmyndir

Upplýsingaöflun
Nemendur leita að upplýsingum um hvaða menningarlegu áhrif múslimar höfðu á Spán / Al-Andalús. Hér má t.d. skoða arkitektúr, vísindi, vatnsveitur og gosbrunna, menntun, baðhús, orðaforða, tónlist og matarhefðir. Nemendur búa til kynningu, veggspjöld eða jafnvel prófa að elda spænskan mat sem á uppruna sinn til múslima. Hér eru nokkrar hugmyndir.

Konur í vísindum
Nemendur kynna sér konur í vísindum. Vinna sem einstaklingar eða litlir hópar og velja sér eina merka konu og búa til veggspjald eða kynningu um hana.

Ítarefni eða kveikjur

Alhambra: Design & Architecture Detailed Guide (10:03)
Myndskeið sem sýnir íslamskan arkítektúr í borginni Granada á Spáni.

When the Moors Ruled in Europe (1:42:01)
Heimildarmynd um sögu múslima á Spáni. Hér er myndin í heild sinni.

Hér er 8 mínútna brot úr myndinni þar sem fjallað er um Alhambra höllina í Granada. Tæpt er á mynstrum, hlutföllum og stærðfræðiþekkingu.

Women in Science – bók
Í bókinni Women in Science er fjallað um 50 konur sem hafa afrekað mikið í vísindasögunni. Nemendur geta lesið kafla að eigin vali til að fræðast um fleiri vísindakonur.