5. kafli – Kynstur af mynstrum
Ár: Óræður tími
Vísindamaður: Enginn
Vísindagrein: Stærðfræði
Staður: Mynstursklefi í Eyðimörk vitneskjunnar (skáldaður staður)
Uppfinning: Íslömsk mynstur
Í þessum kafla festast unglingarnir í annarri vídd þar sem þau hitta anda/djinn sem hefur tekið þau til fanga. Til að sleppa þurfa þau að leysa þrautir sem tengjast íslömskum mynstrum.
Djinnar
Í ritum íslams er því lýst að djinnar búi í huldum heimi handan okkar. Svipaðar verur voru einnig í arabískum þjóðsögum fyrir tíma Múhameðs spámanns, þ.e. áður en trúarbrögðin íslam voru stofnuð. Vegna þess að heimur djinnanna er hulinn veit enginn hvernig hann lítur út. Lýsingarnar í þessum kafla eru hluti af skáldskapnum, ævintýrinu.
Í Kóraninum er því lýst að Allah hafi skapað menn úr leir og djinna úr reyklausum eldi. Djinnar hafa frjálsan vilja líkt og mannfólkið, þeir vita af Allah og sumir tilbiðja hann, og þeir verða einnig dæmdir á dómsdegi. Djinnar taka á sig margskonar myndir. Þeir geta til dæmis birst sem andar eða tekið sér bólfestu í mönnum og dýrum. Þeir eru ýmist góðir eða illir, en oft er þeim lýst sem svikulum og undirförlum verum sem leika á mannfólkið. Í raun mætti segja að trúaðir múslimar líti svo á að það sem mannfólki finnst yfirnáttúrulegt megi rekja til þessara vera. Álfar og huldufólk væru því djinn fyrir trúuðum múslimum.
Í arabískum þjóðsögum og íslömskum ritum er djinnum skipt í nokkra flokka. Til dæmis eru ghul umskiptingar og mannætur og marid eru máttugastir djinna, þeir eru uppreisnarseggir, oftast bláir að lit og þeir geta uppfyllt óskir. Ífrít eru illir, slóttugir og máttugir, og það getur reynst mjög erfitt að stjórna þeim.
Íslömsk mynstur
Í trúræknum íslömskum samfélögum er ekki vel séð að skapa list sem er eftirmynd manna og dýra vegna þess að sköpunarverk Allah er heilagt. Því þróaðist sú hefð að skreyta byggingar að utan og innan með fögrum mynstrum. Mynstursgerðin varð með tíma svo fáguð, fjölbreytt og flókin að útreikningar voru nauðsynlegir til að teikna þau. Þannig runnu stærðfræði (rúmfræði) og listsköpun saman í eitt.
Með heilagri rúmfræði er átt við að skilningur á uppbyggingu heimsins veiti dýpri skilning á sköpunarverki hins guðlega valds, því guðinn er sá sem byggði heiminn með formunum. Heilög rúmfræði einskorðast ekki við íslam, heldur hafa spekingar heimsins lengi velt því fyrir sér hvernig veröldin sé uppbyggð. Hugmyndin um heilaga rúmfræði sprettur meðal annars. út frá því að ýmis rúmfræðileg mynstur birtast í náttúrunni. Sem dæmi má nefna að hunangsflugur búa til sexhyrnd form til að geyma hunangið sitt í, kuðungar og margar jurtir mynda spíral sem er með sömu hlutföll og Fibonacci-spírallinn og ýmis dýr eru mynstruð.
Innsigli Salómons er mynstur sem byggist á Davíðsstjörnunni og á rætur sínar að rekja til Salómons konungs gyðinga. Sögnin um hann þróaðist einnig hjá múslimum. Í íslömskum ritum er sagt að mynstrið hafi verið greipt í hring sem guð gaf Salómoni; hring sem veitti honum vald til að stjórna og hafa taumhald á djöflum (djinnum). Síðar meir varð Innsigli Salómons að dulspekilegu galdratákni í vestrænum samfélögum.
Umræðupunktar
- Hafið þið heyrt um djinna áður? Hvar? Hvaða hugmyndir hafið þið um djinna? Þekkið þið sögur um töfraanda fastan í olíulampa?
- Hvers konar verur í vestrænum þjóðsagnaheimi eru líkar djinnum? Hvað er líkt og ólíkt?
- Ýmis mynstur hafa tengingu við þjóðir eða menningu. Þekkið þið einhver séríslensk mynstur? Hvar eru þau helst notuð? Þekkið þið önnur mynstur? Hér væri hægt að tala um íslensku lopapeysuna, grænlenskar peysur og mynstur, indversk mynstur, Inka-mynstur og fleira.
- Hver eru tengsl stærðfræði við mynstur?
Myndbönd – kveikjur
The complex geometry of Islamic design (5:06)
Ted Talk-myndband um íslömsk mynstur.
Nature by Numbers (3:43)
Fallegt myndband um tölur, hlutföll og mynstur í náttúrunni.
Verkefnahugmyndir
Álfar og huldufólk
Nemendur leita sér upplýsinga um álfa og huldufólk í mismunandi menningarsamfélögum. Dæmi um slíkt eru Tuatha Dé Danann í Írlandi, fairy eða fay á ensku, aos sí í Skotlandi, vila í slavneskum löndum, Yōkai í Japan og frumefnaverur frá alkemistum. Nemendur skiptast á upplýsingum sem þeir fundu og bera þær saman. Hvað er líkt og hvað er ólíkt?
Íslömsk list
Skoða íslamska list á netinu. Slá inn „Islamic art“ í leitarkerfi.
Mynsturgerð
Nemendur hanna eigið mynstur. Jafnvel hægt að hanna það eins og flísar til að skreyta veggi.
Innsigli Salómons
Nemendur skoða mismunandi innsigli Salómons á netinu og velta fyrir sér merkingu þeirra. Velja það sem þeim finnst áhugaverðast og segja frá.
Fibonacci og gullinsnið
Nemendur fræðast um Fibonacci og gullinsnið. Hér er t.d. myndband frá SciShow sem útskýrir Fibonacci.
Og hér er skemmtilegt myndband með Andrési Önd sem útskýrir gullinsnið.
Að því loknu gætu nemendur skoðað þekktar byggingar, málverk og hluti í náttúrunni og leitað eftir gullinsniði eða Fibonacci.
Ítarefni
Shapes and Patterns in Islamic Art
Hér er að finna blöð og myndir til útprentunar sem hægt væri að nota þegar íslömsk mynstur eru skoðuð í sambandi við stærðfræði.
Islamic art
Grein um íslamska list á vefsíðu BBC.
Myndir af íslömskum mynstrum
Myndir á Pinterest.
Pattern in Islamic Art
Vefsíða um íslömsk mynstur með yfir 4000 myndum af byggingum, listaverkum og öðrum verkum.