14. kafli – Aftur til nútíðar
Ár: Samtíminn
Staður: Skólinn
Loksins komast unglingarnir aftur til Teheran, til síns samtíma, og allt er eins og það á að vera. Eða hvað?
Umræðuefni
- Áður en þið lásuð Stjörnuskífuna, þekktuð þið eitthvað af vísindafólkinu sem kemur fram í sögunni?
- Hvað kom ykkur mest á óvart?
- Hvað fannst ykkur merkilegast? Hvaða vísindamanneskja teljið þið t.d. að hafi haft mest áhrif?
- Unglingarnir í sögunni hjálpuðu stundum vísindafólkinu meira en þau áttu að gera og það virðist hafa haft smá áhrif á nútímann. Þetta er algeng hugmynd í vísindaskáldsögum.. Hvaða áhrif ætli það gæti haft á mannkynssöguna ef tímaflakk væri í raun mögulegt? Væri hægt að koma í veg fyrir hörmungar eins og styrjaldir og plágur og hvaða áhrif hefði það þá á nútímann? Ræðið hvernig jafnvel hin smæstu atvik gætu breytt lífi fólks og þar með jafnvel sögunni. Einhver missir af strætó og verður því of seinn eitthvert eða einhver flytur í annað hverfi og kynnist ekki sama fólki.
Myndbönd
The Middle Ages in 3 1/2 minutes
Teiknimynd sem fjallar um sögu vísinda í Evrópu. Kemur aðeins inn á stöðuna í Mið-Austurlöndum. Gæti verið ágætur endir og samantekt á námsefninu. https://www.youtube.com/watch?v=6EAMqKUimr8
Verkefni
Vefleit að öðru vísindafólki
Í sögunni er sagt frá mörgu merku vísindafólki og uppgötvunum þeirra, en það var langt því frá að vera eina fólkið sem gerði miklar uppgötvanir á gullöld íslams. Gott væri að fá nemendur til að fara í vefleit þar sem þau finna upplýsingar um annað vísindafólk og uppgötvanir frá þessum tíma. Nemendur gætu t.d. átt að finna 5 manneskjur eða uppgötvanir og segja frá.
Gagnlegt er að nota eftirfarandi leitarorð:
- islamic golden age inventions
- islamic golden age scholars
Verkefni um eina persónu úr hópi vísindafólksins
Nemendur velja sér persónu úr hópi vísindafólksins í Stjörnuskífunni og vinna verkefni. Það getur verið heimildaverkefni og afraksturinn í formi ritgerðar, teiknimyndasögu eða myndskeiðs. Einnig mætti verkefnið vera á listrænu formi, s.s. mynd af persónunni og uppgötvunum hennar, tónverk eða ljóð.