13. kafli – Kastalaklukkan
Ár: 1206
Vísindamaður: Ismail Al-Jazari (1136-1206)
Vísindagrein: Vélaverkfræði
Staður: Artuklu-höllin í Austur-Anatólíu
Unglingarnir ferðast aftur á upphafsreit, til ársins 1206, þar sem þau skila Al-Jazari stjörnuskífunni, uppfullri af sannindamerkjum sem urðu til við uppgötvanir vísindafólksins. Gunnar og Leyla aðstoða Al-Jazari við að koma meistaraverki hans, kastalaklukkunni, í gang.
Kastalaklukkan
Meistaraverk Al-Jazaris og ein af þekktustu uppfinningum hans. Klukkan var tæplega þrír og hálfur metri á hæð, hún sýndi tímann en einnig gang sólar og tungls og stjörnumerkjanna. Það var meira að segja hægt að stilla lengd dags og nætur eftir árstíma. Á hverjum klukkutíma birtust litlar sjálfvirknivélar og léku á hljóðfæri eða dönsuðu. Líkt og fílaklukkan gekk kastalaklukkan fyrir vatnsafli. Vatnið myndaði þrýsting sem skapaði mótstöðu og hreyfiafl þannig að hlutar gangverksins tóku að hreyfa hver við öðrum.
Kveikjur
Nokkur myndbönd sem sýna kastalaklukkuna:
Al Jazaris Castle Clock (2:11)
https://www.youtube.com/watch?v=83JHHhlOgxw
Al-Jazari and the Castle Clock (5:41)
https://www.youtube.com/watch?v=qz7soHvy-Pw
Castle Clock (0:32)
https://vimeo.com/84078783
Umræðupunktar
- Klukkugerð var mikil listgrein, bæði verkfræðileg og listræn. Enn í dag þykja klukkur hin mestu prýði. Þekkið þið dæmi um klukkur eða úr sem þykja hafa fagurfræðilegt gildi? Svör geta t.d. verið ýmsar kirkjuklukkur, gauksklukkur og jafnvel einhver merkjavara úra.
- Hvers vegna var mikilvægt á öldum áður að hafa klukkur á almannafæri (svo sem klukkuturna)?
- Hægt var að endurforrita kastalaklukkuna svo hún sýndi rétta stöðu sólar eftir mislöngum dögum. Væri hægt að kalla þessa klukku tölvu?
Verkefni
Módel af kastalaklukkunni
Búa til módel af kastalaklukkunni með áherslu á framhliðina en ekki virknina. Hliðarnar geta verið úr pappa eða tréplötum og litlu persónurnar úr leir. Einnig væri hægt að byggja hana úr LEGO. Hér er mynd sem hægt er að nota sem fyrirmynd: http://www.jazarimachines.com/en/wp-content/uploads/2017/01/1jpg512670727.jpg
Ítarefni
Myndband af klukkuturninum í Prag
Í mörgum borgum eru glæsilegar klukkur í miðbænum. Hér má sjá myndband af einni af þeim glæsilegustu, klukkuturninum í Prag, Tékklandi. Hann er frá 15. öld og svipar að mörgu leyti til kastalaklukkunnar: https://www.youtube.com/watch?v=NebyX6-GUTM