9 – Ekkert stél

9. kafli – Ekkert stél

Ár: 875
Vísindamaður: Abbas ibn Firnas (810-887)
Vísindagrein: Verkfræði
Staður: Kordóba, Al-Andalús (nú Spánn)
Uppfinning: Flug

Unglingarnir hitta Abbas ibn Firnas sem var fyrstur manna til að gera raunverulega tilraun til flugs.

Honum tekst að fljúga með svifflugu en brotlendir vegna þess að hann hafði ekki hugsað út í að setja stél á hana.

Í kaflanum er minnst á lækninn Al-Zahrawi sem hefur verið titlaður faðir skurðlækninga.

Abbas ibn Firnas

Abbas ibn Firnas var stórmerkilegur uppfinningamaður, fjölfræðingur, skáld og stórhugi. Hann fæddist árið 810 og lést árið 887, bjó og starfaði í furstaríkinu í Kordóba og er frægastur fyrir að hafa fyrstur manna gert raunverulega tilraun til flugs. Hann hannaði einnig klukkur, fann leið til að lita gler, orti ljóð og margt fleira.

Flug

Mannkynið hefur alltaf heillast af flugi. Nokkur hundruð árum fyrir Krist hönnuðu Kínverjar flugdreka sem veitti innblástur til smíða flóknari tækja.

Abbas Ibn Firnas er talinn hafa verið fyrstur manna til að gera raunverulega tilraun til mannaðs flugs. Nokkrum öldum síðar hannaði Leonardo da Vinci ýmsar svifflugur, sem sumar voru svipaðar þeirri sem Firnas hannaði.

Loftbelgir komu fram á sjónarsviðið á 18. öld og í byrjun 20. aldarinnar var búið að þróa þá yfir í stór loftskip. Þekktust voru hin þýsku Zeppelin loftskip sem notuð voru til fólksflutninga og hernaðar.

Á 19. öld hófst þróun nútíma flugtækni fyrir alvöru og í byrjun 20. aldar voru tilraunir til flugs komnar langt á leið og fyrstu flugvélarnar urðu til.

Skurðlækningar

Abu al-Qasim Khalaf ibn al-Abbas al-Zahrawi (f. 936, d. 1013) var múslimskur læknir sem bjó og starfaði í Al-Andalús. Hann skrifaði þrjátíu binda verk um lækningaaðferðir sem heitir Kitab al-Tasrif. Hann fann upp mörg skurðlækningatól og er álitinn faðir skurðlækninga.

Umræðupunktar

  • Mannkynið hefur alltaf heillast af flugi. Hvernig skyldi standa á því?
  • Hvernig var flug sett inn í fornar sögur? Ef nemendur eru ekki með tillögur sjálfir má hjálpa þeim af stað með því að rifja upp eða segja þeim söguna af Íkarusi sem flaug en fór of nálægt sólinni. Eða af þrumuguðinum Þór sem þeysist um himininn á vagni sem dreginn er af tveimur geithöfrum . Seifur breytti sér í hin ýmsu dýr, nornir flugu, Pegasus var vængjaður hestur í grískri goðafræði, englar í kristni, gyðingdómi og íslam eru oft settir fram sem vængjaðar verur, valkyrjur í norrænum sið gátu flogið og sumir egypskir guðir.

Verkefni

Heimildaöflun
Nemendur afla sér upplýsinga um flugtæki Firnas og Da Vincis og bera saman.

  • Skutlugerð
    Nemendur búa til eigin svifdreka (skutlu). Gera tilraunir með mismunandi pappír, stél, nef, vængstærð, aukaþyngd á valda staði o.s.frv. Mæla svo hvað svifdrekinn endist lengi í loftinu og hve langt hann kemst. Það gæti verið skemmtilegt að hafa LEGO fígúru eða eitthvað svipað í svifdrekunum og sjá hverju þyngdin breytir. Skrá niðurstöður fyrir hverja hönnun, t.d. í töflu þar sem kemur fram hvaða svifdreki þetta er, hverju er breytt frá síðustu hönnun og hversu langt hann flaug. Hér er fjöldi hugmynda að skutlum:
    Paper Airplane Gallery
    Just build them

Flugdrekagerð
Búa til flugdreka. Hér eru leiðbeiningar um hvernig á að búa til flugdreka.

Myndbönd – kveikjur

Abbas ibn Firnas ISLAMIC inventions in Al-Andalusia (Spain Portugal) (4:36)
Stutt myndband um Abbas ibn Firnas.

FIRST AVIATOR ABBAS IBN FIRNAS ORIGNAL FLIGHT (the first flying machine) (4:46)
Annað stutt myndband um hann.

How do things fly? (1:21)
Myndband frá Smithsonian sem sýnir hvað lætur flugvélar fljúga.

1001 Inventions – Al Zahrawi (2:11)
Myndband frá 1001 Inventions þar sem Al-Zahrawi segir frá sjálfum sér.

Ýtarefni

Wright Brothers vs. Curtiss
Annar þáttur í þáttaröðinni Genius sem má m.a. finna á Netflix. Þátturinn fjallar um samkeppni á milli flugkappanna Wright-bræðra og Curtiss.

Daedalus and Icarus – Storyteller: Greek Myths (4:10)
Myndband frá Jim Henson Company sem segir söguna af Íkarusi.

Al-Zahrawi – The Pioneer of Modern Surgery (1:59)
Stutt myndband þar sem segir frá lækninum Al-Zahrawi og verkum hans.

Bastille – Icarus (3:16)
Ef talað var um Íkarus er upplagt að enda kennslustundina á því að hlusta á lagið Icarus með Bastille.